Hellir, Hrókurinn og Skákfélagið Vin með stórmót

Póstað: 08/10/2009

Skákmót verður haldið í göngugötunni í Mjódd, laugardaginn 10. október í tilefni alþjóðlegs geðheilbrigðisdags. Skráning hefst klukkan 15 en mótið byrjar kl. 15:30. Skákfélag Vinjar, Hrókurinn og Taflfélagið Hellir sameinast um mótshald að þessu sinni og stefnt er á metþátttöku en 39 skráðu sig til leiks í fyrra er mótið var í Perlunni.

Er þetta í fimmta sinn sem mót þetta er haldið og mun FORLAGIÐ gefa glæsilega vinninga á mótið sem fyrr. Glæsilegir bókavinningar eru fyrir þrjú fyrstu sætin, 12 ára og yngri, 13-18 ára, 60+ og bestan árangur kvenna. Þar að auki eru happadrættisvinningar.

Tefldar verða sjö umferðir með sjö mínútna umhugsunartíma. Skákstjórar eru Hrannar Jónsson og Vigfús Ó. Vigfússon en yfirdómari Róbert Lagerman.

Gunnar Björnsson, forseti Skáksambands Íslands, setur mótið og leikur fyrsta leikinn.

Allt skákáhugafólk er velkomið og það kostar ekki krónu að vera með.

Heilmikil dagskrá er í Mjóddinni frá klukkan 13:00 svo það eru um að gera að mæta tímanlega.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.