Geysisdagurinn 25. júní 2011

Póstað: 24/06/2011

Þann 25. júní verður Geysisdagurinn haldinn hátíðlegur. Klúbburinn Geysir mun standa fyrir deginum, en hann starfar fyrir fólk sem á eða átt hefur við geðræn vandamál að stríða. Geysisdagurinn er fjáröflunar-, skemmti- og fjölskyldudagur þar sem fyrirtækjum í götunni hefur verið boðin þátttaka ásamt nágrönnum og velunnurum klúbbsins. Ef veður leyfir er stefnt er að því að hátíðin fari fram utandyra og hafa klúbbfélagar þegar lagst á eitt og beðið um gott veður. Vonandi gengur það eftir svo hægt verði að hafa karnivalstemmningu í Skipholtinu þar sem Geysir er til húsa.  Á meðal dagskrárliða sem í boði verða má nefna: Nytjamarkað, 180m örþon með frjálsri aðferð, húsbandið Keli og kiðlingarnir munu leika nokkur lög, auk þess sem veitingar verða seldar til styrktar Geysi og óvæntar skemmtilegar uppákomur.

Klúbburinn Geysir starfar eftir hugmyndafræði Fountain House sem byggir á að efla hæfileika og styrk einstaklingsins. Með því að gefa hverjum og einum tækifæri til að nýta sínar sterku hliðar þjálfast viðkomandi til fjölbreyttrar þátttöku í samfélaginu. Í störfum innan Klúbbsins Geysis er alltaf lögð áhersla á stuðning og virðingu fyrir félögum og á jákvæða athygli þar sem horft er á styrkleika í stað þess að einblína á sjúkdóminn.

Frá undirbúningi Geysisdagsins
Frá undirbúningi Geysisdagsins
 
 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.