Börn, unglingar og geðlyf

Póstað: 22/04/2010

Höfundur: Steindór J. Erlingsson.
Morgunblaðið 19.04.2010.
 
Börn, unglingar og geðlyf
 
Í nýrri grein eftir Helgu Zoëga, Matthías Halldórsson aðstoðarlandlækni og fleiri, sem birtist í desemberhefti Journal of Child and Adolescent Psychopharmacology, koma fram sláandi upplýsingar um geðlyfjaneyslu barna og unglinga hér á landi. Ávísun geðlyfja til þessa aldurshóps er sú mesta sem þekkist í Evrópu, en er að einhverju leyti sambærileg við það sem tíðkast í Bandaríkjunum. Hvernig stendur á því? Erum við að selja langtímahagsmuni barnanna okkar fyrir skammtímagróða?Þegar horft er á einstaka lyfjaflokka hefur ávísun örvandi lyfja, sem notuð eru til þess að meðhöndla athyglisbrest og ofvirkni (ADHD), aukist gríðarlega á undanförnum tveimur áratugum. Í samanburði við Finna nota Danir, skv. annarri vísindagrein, tvisvar sinnum meira af þessum lyfjum, Svíar þrisvar, Norðmenn átta en Íslendingar 22 sinnum meira. Þrátt fyrir áhyggjur sumra lækna og vísindamanna af langtímaáhrifum þessara lyfja kemur fram í leynilegri skýrslu lyfjaframleiðendanna, sem opinberuð var í upphafi mars, að fyrirtækin sjá ekki ástæðu til þess að kanna málið nánar.

Þegar þessar staðreyndir eru hafðar í huga er viss kaldhæðni falin í því að einn af höfundum skilgreiningarinnar á ADHD, bandaríski geðlæknirinn Allen Frances, viðurkenndi nýlega að hún hefði stuðlað að „fölskum faraldri“. Frances segir ADHD-netið hafa of þrönga möskva. Það hafi „fangað marga sjúklinga sem hefði líklega vegnað mun betur utan geðheilbrigðiskerfisins“.

Í grein Helgu, Matthíasar og félaga kemur fram að við eigum heimsmet í ávísun þunglyndislyfja til barna og unglinga, þó að eitthvað hafi dregið úr notkun þeirra á undanförnum árum. Lækkunin skýrist e.t.v. að hluta með vaxandi ávísun örvandi lyfja. Aukin ávísun geðrofslyfja er einnig áhyggjuefni, en hún er margfalt meiri hér en annars staðar í Evrópu. Eins og bent er á í greininni er þetta varasöm þróun vegna alvarlegra aukaverkana geðrofslyfja. Til að bæta gráu ofan á svart þá reyndu framleiðendur a.m.k. sumra geðrofslyfja (Seroquel og Zyprexa) að halda upplýsingum um aukaverkanir eins og þyngdaraukningu og sykursýki leyndum fyrir læknum og almenningi. Innanhússkjöl hafa leitt þetta í ljós.

Hver er ástæðan fyrir þessari miklu ávísun geðlyfja til barna og unglinga hér á landi? Höfundar greinarinnar veltu upp nokkrum mögulegum skýringum. Sú sem mér þykir áhugaverðust eru möguleg áhrif frá Bandaríkjunum, en eins og þau benda á sækja margir íslenskir læknar þjálfun og endurmenntun þangað. Mikil geðlyfjaávísun í Bandaríkjunum endurspeglar ofurtrú á mátt lyfjanna og síauknar vinsældir líffræðilegra skýringa á orsökum geðraskana. Árið 2005 varaði formaður Bandarísku geðlæknasamtakanna félagsmenn sína við þessari þróun þegar hann kvartaði undan því að geðlæknar hefðu leyft líf-, sál- og félagsfræðilegum skilningi á geðröskunum „að umbreytast í líf-, líf- og líffræðimódel“.

Breski barna- og unglingageðlæknirinn Sami Timimi gerir þessa ofurtrú á líffræðilegar skýringar á geðröskunum að umtalsefni í kafla sem birtist í bókinni Liberatory Psychiatry (2008). Timimi segir líffræðilegu þröngsýnina byrgja okkur sýn á félags- og sálfræðilega þætti sem eru ekki síður undirrót geðraskana. Það sem verra er þá flytur hún ábyrgðina frá samfélaginu yfir á einstaklinginn. Í ljósi þess að fyrir hverja stúlku sem greinist með geðröskun á fyrsta og miðstigi í grunnskóla eru 3-4 strákar, spyr hann hvort sé líklegra að „strákarnir séu líffræðilega veikari eða fatlaðir á einhvern hátt, eða að við séum farin að líta á atferli stráka alvarlegri augum en stúlkna“. Timimi hallast að síðari skýringunni og rekur þessa þróun aðallega til breytinga á samfélagsgerðinni undanfarna áratugi sem sé ungum drengjum mjög í óhag. Ekki má heldur gleyma þætti ófullkomins greiningakerfis, hvort sem um er að ræða ADHD, þunglyndi eða aðrar raskanir.

Nú er kominn tími til að læknar og stjórnvöld horfi upp úr pilluglasinu. Kanna þarf hvort það sé eitthvað í samfélagsgerðinni og skólunum sem gerir það að verkum að sumum börnum og unglingum líður illa og eru greind með geðraskanir. Þetta felur í sér spurninguna um hvort við séum í einhverjum tilfellum að gera félagsleg vandamál að læknisfræðilegum. Er það t.d. tilfellið hér á landi, eins og í Bandaríkjunum, að börn frá efnalitlum fjölskyldum séu líklegri til þess að vera sett á geðrofslyf? Lyfin nýtast auðvitað sumum einstaklingum. En í ljósi þess hve varasöm sum þeirra lyfja sem börn og unglingar neyta eru þarf að mínu mati að huga að öðrum leiðum áður en gripið er til lyfjaávísana. Ef við horfum sérstaklega á ADHD gæti þetta reynst vandkvæðum bundið. Fjöldi þeirra vísindagreina þar sem áhersla er lögð á lyfjameðferð yfirgæfnir þær sem leggja áherslu á atferlismeðferðir (10:1) eða kennslufræðilegar nálganir (7:1). Ég tel hins vegar mjög mikilvægt að við afsölum okkur Evrópumetinu í ávísun geðlyfja til barna og unglinga. Langtímahagsmunir a.m.k. sumra þeirra sem neyta lyfjanna kalla á það.

Höfundur er líf- og vísindasagnfræðingur.
 
steindór
Steindór J.  Erlingsson

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.